23.04.2014 08:14

páskar og gleði

jæja þá eru páskarnir liðnir og ég átti frábæra páska þetta árið með engu páskaeggi og hananú.  Reyndar fengum við eitt egg frá Íslandi sem mamma hennar Lovísu var svo elskuleg að flytja yfir hafið fyrir okkur en feðginin borðuðu það án mín, en það er sko bara allt í lagi.

En páskarnir byrjuðu með ferðalagi á miðvikudaginn eftir vinnu en við mæðgur skelltum reiðhjólinu gamla hennar Ástrósar Mirru í bílinn ásamt öllu stúdeódótinu mínu og héldum af stað til Sandefjord.  Hjólið var ætlað M&M sem var mikið glaður að fá hjól og ég mikið glöð að losna við það úr ganginum hjá mér þar sem enginn gat notað það hérna, allir vaxnir uppúr því.  Stúdeódótið var vegna þess að ég ætlaði að vera með myndatöku af henni Emmu litlu og bræðrum hennar í stofunni hjá Ingu og svo auðvitað fermingarmyndir af Söru skvísu.

Aksturinn gekk vel og var beðið með dásemdarmat þegar við komum á Baldersvei, svo það var byrjað að borða góðan mat og svo sátum við Inga frameftir að kjafta og kjafta.  Veðurspáin sagði rigning á fimmtudaginn svo skipulagsfríkin var auðvitað búin að ákveða að þá yrði stúdeomyndataka inni og það var auðvitað snilld því alla hina dagana var glampandi sól og blíða.  Myndatakan gekk mjög vel enda Emma algjört rassgat og bræðurnir flottir.  En eitthvað þoldu ljósin mín þetta ekki og þegar ég er alveg að verða búin með systkinin fór að rjúka úr öðru þeirra.  Þá átti ég eftir að mynda Söru sem var búin að eyða 2 klukkutímum í að laga sig til, slétta hárið, krulla hárið, flétta hárið og ég veit ekki hvað og hvað.  En við reyndum að mynda hana með ljósi sem blikkaði þegar því sýndist og vældi eins og sírena, Inga var með suð fyrir eyranu í marga daga á eftir.  Ég náði samt alveg 50 fínum myndum af henni og svo var nefnilega búið að ákveða að aðalmyndatakan ætti að vera úti á föstudaginn langa.  Um að gera að nota svona langa daga í svona skemmtilega hluti.

Svo kom föstudagurinn og það var glampandi sól en örlítill vindur, en það heitir rok á norsku og við dóluðum okkur aðeins og Sara gerði sig sætari og klára fyrir útimyndatöku.  Ég var svo heppin að geta skipað Ingu yfirbílstjóra svo ég gæti bara hugsað um myndatökuna og horft út um gluggann og fundið góða staði.  Ég var með eitt ákveðið í huga og það var að mynda hana á járnbrautateinum.  Og við fundum þá...........................   ásamt fullt af öðrum flottum stöðum.  Ég tók líka útimyndir af krökkunum hjá Ómari og Kötlu og þetta var bara virkilega góður dagur sem endaði með steik og hvítvíni um kvöldið.

En á laugardaginn vöknuðum við og þá var sko aftur glampandi sól en nú var alveg logn og þvílík dásemd.  Þá var ferðinni hjá okkur Ingu heitið með lest til Tønsberg og þar ætluðum við að skoða okkur um og taka myndir og hitta Sivvu ljósmyndafélaga minn sem býr í Osló.  Við erum búnar að vera að tala um það í heilt ár að hittast og loksins var tækifærið.

Ég uppgötvaði dásemd lestarferða þennan dag og er mikið að hugsa um að taka frekar lest til Oslo í 6 tíma en innanlandsflug í 45 mín sem er reyndar aldrei 45 mín því það þarf að koma sér á staðinn löngu fyrir flug, tékka sig inn, fara í gegnum leitardótið, passa að töskurnar séu ekki of þungar, passa að það sé ekkert í handfarangri sem ekki má vera þar og það er nánast ekkert sem þú þyrftir einmitt helst að hafa þar, snyrtivörur, drykkir í fluginu og bók.  Jú ég má hafa bókina. Enda eru handtöskurnar okkar yfirleitt tómar því það má ekkert vera í þeim.  Hef lítið að geta við nærbuxur í handfarangri.  Má ekki einu sinni vera með gloss þar svo ég er að hugsa um lestina þar sem ég má bara hafa allt mitt dót hjá mér og þetta er eitthvað svo notarlegt, svífur áfram og getur horft á landslagið og já þetta verður skoðað nánar.

Svo aftur að Tønsbergferðinni, við Inga löbbuðum niður á lestarstöð sem var í 15 mín. til Tønsberg og fórum þar út og þá blasti við kastalinn sem við ætluðum að skoða og hitta Sivvu á.  Við hittum Sivvu fljótlega og röltum þarna saman um og tókum myndir og kjöftuðum og kjöftuðum.  Röltum svo niður í bæ og skoðuðum miðbæinn og enduðum niðrá bryggju og þar fengum við Inga okkur øl en Sivva kaffi því hún var á bíl en við ekki.  Glampandi sól, iðandi mannlíf og mér fannst ég svo lifandi og var svo glöð.

Vorum saman í Tønsberg til 17 en þá keyrði Sivva heim og við Inga hoppuðum uppí lestina og keyptum svo kínamat á leiðinni heim og færðum krökkunum sem voru búin að vera svo dugleg ein heima allan daginn.

Bara dásamlegur dagur og svo á sunnudaginn vöknum við enn og aftur í glampandi sól og svo var ferðinni heitið heim til strákanna okkar sem voru búnir að vera einir alla páskana en nutu þess alveg en hlakkaði líka til að fá okkur heim og þó við höfum átt frábæran tíma þá er alltaf gott að koma heim, nema Ástrós Mirra komst ekki alla leið því hún lét mig skutla sér til Sunnu en kom svo daginn eftir.

Frábærir páskar og enn heldur sólin áfram að skína og mikið ofboðslega hefur þetta góð áhrif á sálina, ekkert skrítið að Íslendingar séu þunglyndir í þessum vondu veðrum.

Elska sólina og lífið þó ég sé ekki mikið fyrir að liggja í sólbaði þá er það eitthvað bara sem gerist fyrir sálina og ég hlakka til vorsins og sumarsins hérna úti.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

 

15.04.2014 08:27

Hundahald og skrítnar skoðanir

Ég verð víst að nota bloggið mitt til að fá að vera í friði að tjá mig um þessi mál.  Ég var að lesa þráð hjá einhverju Hundasamfélagi á Íslandi á feisbúkk og skil bara ekki umræðuna.

Það er verið að tala illa um það að hundar séu látnir sitja fyrir utan búðir í bandi meðan eigandinn fer inn að versla.  Af hverju ætti það ekki að vera í lagi ef hundurinn er vel upp alinn þá situr hann bara kjurr og bíður þar til eigandinn kemur út.  Ef þú aftur á móti átt hund sem vælir ef hann er skilinn eftir, þá að sjálfsögðu skilur þú ekki eftir, en það er eitthvað að þeim hundi sem getur ekki beðið eftir eigandanum í 10 - 15 mín.

Hér í Noregi eru hundar bundnir fyrir utan nánast allar búðir, það eru líka margir sem eru ekki bundnir en sitja fyrir utan búðina og bíða eigandans.  Hundahald er leyft í Noregi og mér sýnist að það sé mikið meira um vel upp alda hunda hér en ég heyri um frá Íslandi (tek það fram að ég þekki bara 2 hunda á íslandi svo ég er bara að segja það sem ég les á þessum þræði hundasamfélagsins)

Hundar eru hér sýnilegir um allt, fólk sýnir þeim þá virðingu að vera ekki að atast í þeim.  Ef þú mætir manneskju með hund (og þú ert sjálf með hund) þá hægir hún á sér og ég líka meðan við erum að sjá hvernig hundanir munu bregðast hvor við öðrum.  Stundum verða þeir tjúllaðir og vilja í hvorn annann en stundum er bara þefað og svo haldið áfram.  Ef allir sýna hvor öðrum þá virðingu að bíða og sjá hvernig viðbrögðin verða þá verður minna um árekstra.

En aftur að því að hundar megi ekki vera bundnir fyrir utan verslanir á Íslandi, eru í alvörunni lög til um það?  Spyr sú sem ekki veit.  Hér eru hundar aldrei (jæja ég sá einn um daginn og það var sá fyrsti) bundnir úti í garði einir, ef hundar eru bundnir úti í garði þá er fólkið oftast þar líka, situr á pallinum kósí.  Svo mega hundar vera lausir hér í skóginum (ekki öllum skógum samt, en þá eru þeir merktir) frá 1. okt. til 1. apríl held ég og er það bannað á þeim tíma vegna varps og þess háttar.  Við höfum komið á nokkra staði hérna sem við höfum vilja leyfa Erro að vera lausum en þá er kannski fyrir fólk þar og við höfum í nokkrum tilvikum ætlað að stoppa og því bara spurt fólkið hvort þeim sé sama þó hann sé laus og allir, já allir hafa sagt auðvitað, ekki vera að hafa greyið bundið, við áttum hund eða við eigum hund osfrv.  og svo er þetta ókunnuga fólk bara að leika við hann eins og við.  Ótrúlega mikið umburðarlyndi gagnvart hundum og það er það ábyggilega bara af því að þeir eru margir hér, minna af reglum vegna þeirra og því allir sem hafa alist upp með hundi eða nálægt hundi.  Ég hef lítið sem ekkert umgengist hunda um ævina og er jæja eða var hálfhrædd við ókunnuga hunda, ég er að fatta það hér og nú þegar ég skrifa þetta að ég er það alls ekki lengur.  Hitti hér alls konar hunda af öllum stærðum og klappa þeim öllum, tala við eigendurna og já þetta er hluti af samfélaginu. 

En enn og aftur að því, af hverju mega hundar ekki vera bundnir fyrir utan búð?

Stundum verð ég svo bit að ég verð bara að tönnglast á hlutunum.  Er ókunnugt fólk í alvörunni að hamast í hundinum sem situr kjurr og bíður eiganda síns?  Og hvað er það þá bara ekki í lagi, af hverju er hundurinn bara ekki ánægður að einhver nenni að klappa honum?  Er það kannski af því að það er alltaf verið að fara með hundana á einhver sérstök hundasvæði og þeir kunna ekki að vera innan um ókunnugt fólk.  Hvernig væri að fara bara daglega með hann út í búð og láta hann sitja fyrir utan búðina, hann myndi læra að vera stilltur á nokkrum dögum og fólk yrði vant því að sjá þennan hund þarna fyrir utan og léti hann í friði.

Jæja nóg um hundamálin, ég er reyndar voða fegin að hafa eignast minn fyrsta hund hér í Noregi.

Nú eru að koma páskar og við Ástrós Mirra ætlum í stelpuferð til Sandefjord á morgun og vera fram á páskadag.  Þráinn og hinir strákarnir á heimilinu verða skildir eftir heima og ætla þeir bara að hafa það rólegt og lakka kommóður og þess háttar.

Við eða ég ætla hinsvegar að taka myndir og taka myndir í Sandefjord.  Ég ætla að taka fermingarmyndir af Söru og ég ætla að taka myndir af Lottu litlu og breyta stofunni hennar Ingu í stúdeó og svo verða systkinamyndir af Lottu og bræðrum hennar.  Kannski ein ungbarnamyndataka en líklega ekki fyrst ekki er búið að staðfesta hana núna.

Svo ætlum við Inga að keyra til Tönsberg og þar ætlar hún Sivva ljósmyndavinkona mín sem bjó í Hafnarfirði og býr rétt hjá Osló núna að koma og hitta okkur, þarna ætlum við að skoða kastala og fallega höfn og kíkja á kaffihús og kannski hitta Julie þar, því hún verður í Tönsberg um páskana líka.

Þetta verður geggjað gaman með dassi af góðum mat, góðum félagsskap og smá hvítvíni.

Hlakka til

En í dag eigum við skötuhjúin brúðkaupsafmæli og það eru orðin 19 ár síðan við giftum okkur, ósköp er tíminn eitthvað fljótur að líða, hvernig má það vera að það séu 19 síðan þetta var og þá vorum við búin að vera saman í 13 ár og ef maður leggur þetta saman þá kemur út að við hljótum að vera gamalt fólk en ekki krakkakjánar úr Eyjum.

Ég er oft að hugsa miðað við hvað mér finnst ég mikil stelpa þó ég sé orðin fimmtug hvort aðrir séu líka að upplifa þannig.  Fannst ömmu hún til dæmis vera stelpa þegar hún var fimmtug eða er tilveran að breytast eða er þetta bara ég, litli hrúturinn sem alltaf verður litla barnið í stjörnumerkjahringnum?

Það er spurning.

Alla vega til hamingju með daginn okkar Þráinn minn, ég elska þig alveg jafn mikið núna og fyrir 32 árum þegar ég hitti þig fyrst, mér finnst þú ennþá flottasti strákurinn og er svo fegin að hafa kynnst þér.

Gleðilega páska elsku vinir og njótið lífsins og íslendingar "étið" páskaegg eins og ykkur sé borgað fyrir það.  Við fáum smá sendingu frá Íslandi líka, því mamma hennar Lovísu ætlar að vera svo góð að kaupa páskaegg fyrir okkur.

Þangað til næst;

Ykkar Kristín Jóna

07.04.2014 07:48

Afmæli aftur og nýbúin

Já maður á víst afmæli orðið tvisvar á ári held ég, alla vega er örstutt síðan síðast en þetta afmæli er talsvert rólegra og enginn pirringur í mér eins og í fyrra.  En hvað er ég búin að vera að gera síðan ég talaði um hreiðurgerðina?  Jú það er talsvert. 

Vinna, og nú munar tveimur tímur á mér og Íslandi þannig að það er stundum smá flókið, sérstaklega þegar veðrið er gott og ég vil hætta snemma að vinna að þá er bara hádegi á Íslandi ennþá en sem betur fer er verkefnastaðan hjá mér stundum þannig að ég get leyft mér það.  Svo vinn ég bara meira þegar rignir.  Suma daga í vinnunni sleppi ég mat, þar sem það hentar illa vegna símavaktar sem er þá hjá mér 10-14 en svo koma dagar sem ég er ekki á símavakt og þá tek ég kannski aðeins lengri matartíma og fer út að labba með Erro og við erum að upplifa vorið saman.

En ég fór á sunnudaginn síðasta með Adriönu og Marinu 7 ára skvísu að mynda Marinu og það var fyrsta myndatakan mín á norsku og það gekk ótrúlega vel og var svo gaman.  Frábær stelpa sem fannst gaman að sitja fyrir þar til henni fannst komið nóg.  Elska svona krakka sem láta bara vita að þetta sé nú orðið gott (eftir 1,5 tíma) hún gaf mér 8 í einkunn í norskunni eða sko hún átti að gefa mér einkunn í hvernig henni gekk að skilja mig og það var sem sagt fín einkunn, reyndar þurftu ég og mamma hennar stundum að ræða betur hvað ég meinti eins og til dæmis þegar ég spurði hvort hún hefði ekki tekið með sér kjol (borið fram af mér eins og það er skrifað) en þær skildu ekki hvað ég meinti og ég endaði á að þurfa að benda á minn kjól og þá föttuðu þær að ég meinti hjúle, svo mig vantar aðeins uppá framburðinn en held ég hafi orðið slatta af orðaforða.

Góður sunnudagur með skemmtilegum mæðgum.  Nú svo kom mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur og þá var bara vinna og dúlla sér, svo sem ekkert sérstakt gert þá daga en á föstudaginn fórum við og keyptum okkur blóm á tröppurnar og í gluggann minn svo ég fengi smá vor hérna inn.  Og það er að heppnast, bara yndislegt að labba fram hjá blómum á leiðinni út og inn og eins er yndislegt hvað hornið mitt hérna með hvíta bekknum og blóm í glugganum er orðið  kósí.

Svo á laugardagsmorguninn tók Þráinn sig til og klippti mig, ég get ómögulega beðið þar til í lok mai þegar Óli Boggi kemur til að klippa íslenskar konur í Mandal og Kristianssand og þetta var sko bara vel heppnað hjá mínum.

Svo fór ég með Júlíu út í Grimstad (já tvo laugardaga í röð) en þar var Antik og retromessa eins og þeir kalla það.  Við gengum inní íþróttasal og það var allt fullt af borðum með antikmunum en úps allt var heldur dýrara en á loppumörkuðum og of dýrt fyrir mig í þetta sinn þó það væri ótrúlega margt sem mig langaði í, sérstaklega dúkkuvagnarnir, jesús hvað þeir voru geggjaðir.  Júlía hafði ætlað að kaupa sér spegla og það var einn spegill á allri messunni og allt of dýr svo við keyptum lítið sem ekkert.  En ég hafði séð Genbruktbutikk í Lillesand um síðustu helgi og við ákváðum að fara þangað að skoða og já þarna vorum við að tala saman og allt fullt af speglum handa Júlíu.  Ég stóðst ekki mátið og keypti mér gólfvasa (og já hann er grænn) og tvo retro vegglampa og svo þegar við komum heim til Júlíu þá klippti hún greinar af trjánum til að gefa mér svo ég gæti sett í vasann og fengið enn meira af vori inn til mín.  Þetta voru svo margar greinar að ég setti þær í 3 vasa hérna hjá okkur, einn í holið mitt, einn í eldhúsið og einn í stofuna.  Svo þarf bara að muna að vökva allt þetta vor.

Jæja svo þegar ég kom heim frá heimsókninni til Júlíu þá var bara smá kósí og svo fórum við hjónin út að borða saman og eftir matinn tókum við góðan göngutúr og keyptum okkur ís, komum svo heim og fengum okkur hvítvít og horfðum á Idolið.  Yndislegur dagur og kvöld.

Sunnudagur og hvað skal gera í dag?  Ekkert segir Þráinn og Ástrós Mirra og Sunna þarna uppi á lofti vilja bara hanga saman og leika sér í tölvunni svo ég ákveð að fara á bílnum og athuga hvort ég finni stilluna og vorið í þokunni og úðanum, sem ég og gerði.  Leyfði Erro að koma með og hann var ótrúlega duglegur því ég leyfði honum að vera lausum en þarna sem ég var er bara gatan og ég er alltaf svo hrædd um hann við götuna því hann kann ekki að vara sig á bílunum.  En hann var alveg kjurr öðrum megin meðan ég labbaði yfir og kallaði svo á hann svo hann hljóp beint yfir til mín.  Ég tók nokkrar stillumyndir þarna og átti bara dásamlega stund ein með sjálfri mér (og Erro) í þoku og stillu og svo mikilli kyrrð og ró að ég kom endurnærð til baka. 

Þá skruppum við í Søgne og hittum Olgu og Frikka og ég var búin að panta að fá að mynda stelpurnar þeirra en það var þoka og smá súld og ekki víst að það væri gott að mynda úti en samt, mér fannst ég sjá að það væri spennandi birta fyrir útiportrait og Olga var með einhverja staði í huga en ég þekki Søgne lítið og hélt hún væri alveg úti að aka með þetta en svo komum við niðrá bryggju þar og jeiiiiiiiiiiiiii geggjaður staður fullur af smábátum og strönd og eyjar fyrir utan og þokan og súldin gerðu svo mikla mystík að þetta var bara geggjað.  Svo eftir þetta komum við aftur heim til þeirra og fengum vöfflur með ís og svo komu Hadda og Fúsi, svo þetta var bara mjög yndislegur sunnudagur.

Komum svo heim um kl. 19 og þá var Sunna farin með rútunni og kósí sunnudagskvöld hjá okkur og í dag er mánudagurinn 7. apríl og litla stelpan sem lék sér í Flekkuvíkinni í denn er víst orðin 51 árs hvernig sem staðið getur á því.

Og talandi um 51 árs stelpur þá fór mamma með ömmu til læknis um daginn og hann átti ekki til orð að hún amma væri fædd 1919, hann hafði aldrei fengið sjúkling sem hafði náð þessum aldri áður, og hver ert þú spurði hann svo mömmu og hún sagðist vera dóttir hennar og þá varð hann enn meira hissa, ég veit ekki hvort það var að amma ætti svona gamla dóttur eða hvað en þá datt mér í hug að hann hefði nú orðið enn meira hissa ef þær hefðu tekið barnið með sér og barnið það er ég.

Elska lífið og ykkur öll og ætla að drekka góðan kaffibolla og njóta þess að horfa á blómin mín á þessum dásemdar degi.

Addi mágur á líka afmæli í dag og sendi ég honum mínar bestu kveðjur ásamt kveðjum til þeirra allra og sérstaklega fermingarbarnsins sem fermdist í gær.  Það var leiðinilegt að geta ekki verið með þeim á þessum degi.  Vonandi hefur Addi það svona kósí á afmælisdaginn sinn.

Ykkar Kristín

30.03.2014 08:38

Hreiðurgerð....

Við mannfólkið erum ekkert öðruvísi en fuglarnir því á vorin förum við í hreiðurgerð aftur og aftur, við þurfum ekki að gera nýtt hreiður en við fáum þessa sterku löngun að þrífa hjá okkur, kaupa eitthvað nýtt til að punta uppá hjá okkur og gera allt sem við getum til að hreiðrið okkar verði sem fallegast og notarlegast yfir vorið og sumarið.

Ég kalla þetta hreiðurgerð því hún byrjar á sama tíma og fuglarnir fara í sína hreiðurgerð, en kannski er þetta bara tengt birtunni og hlýjunni og því að það sé að koma vor.

Alla vega fæ ég þessa sterku tilfinningu að þurfa að breyta hjá mér og kaupa eitthvað nýtt til að punta upp og gerði það í gær þegar við hjónin skruppum til Grimstad á loppumarkað.  Við vorum mætt rúmlega 10 þangað en það opnaði kl. 10 og vá það var sko fullt af fólki komið og húsið nánast fullt, varla hægt að labba um að skoða en fullt að spennandi hlutum sem fólk var að kaupa og auðvitað keyptum við eitthvað líka.  Ég fór til að finna eitthverja trékassa til að nota bæði fyrir blóm og stúdeomyndatökur en ég fann enga svoleiðis. Enga blómapotta sem væri hægt að nota úti en ég fann kommóðu handa Mirrunni sem þarf bara að lakka hvíta núna og þá verður hún rosalega fín.  Ég fann þessa æðislegu kertastjaka úr leir, ég fann svo fallegar flöskur til að geyma eitthvað í, í eldhúsinu, hjá mér var fyrir valinu uppþvottalögur og matarolía.  Þráinn fann svo snilldarklemmur til að nota á bakgrunninn minn þegar ég hengi hann upp og svo keyptum við á leiðinni heim gólflista til að festa á bakgrunninn og blómapott á stéttina, ég ætla að bíða í viku með að kaupa blómin, fannst svo lítið úrval í gær enda kannski í fyrra fallinu að vera að koma þeim út strax.  Það er nefnilega pínu kalt ennþá á nóttunni ég fann það þegar ég fór út með Erro áðan, reyndar bara pínu ískalt þar til sólin fer að skína og hún er byrjuð.  :)

Ég rak augun í þessa geggjuð stóla þarna og ætlaði nú bara að kaupa einn, en þeir vildu selja þá saman því þeir voru bara tveir og fyrst þeir kostuðu ekki nema 50 krónur samtals þá létum við vaða, þurfti bara að þrífa þá og ekkert annað.  Næs, kannski einhvern daginn set ég nýtt áklæði en það þarf ekkert núna, finnst alveg fínt að hafa hlutina smá slitna.  Elska hönnunina á þessum stól og stálfæturnir eru alveg að gera sig.  Eitt sem ég reyni að hugsa núna þegar ég kaupi eitthvað til að nota við myndatökur er að hluturinn þarf að passa líka inná heimilið (nema hann sé því minni) þannig að allt sem er keypt fyrir studeomyndatökur er einnig notað af okkur fjölskyldunni þess á milli.

Dagurinn í dag verður æðislegur.  Ég er að fá Norsk-Braselíska stelpu í myndatöku þannig að þetta er fyrsta myndatakan mín þar sem norska er eina tungumálið sem verður talað.  Hún heitir Marina og er um 7 ára, algjör skvísa og ég hlakka svo til að mynda hana.  Við ætlum að fara út á strönd og leika okkur.  Stefnan hjá mér núna er að reyna að fá eina myndatöku á viku til að halda mér við efnið, finn alveg hvað maður dettur úr formi þegar lítið er að gera í þessum efnum.

En hér er smá sýnishorn af því sem var keypt í gær til að gera hreiðrið okkar huggulegra þetta vorið.

sýni ykkur myndir af kommóðunni þegar búið er að skvera hana.  Annars bara bjart framundan hjá okkur, vonandi tekst okkur að selja fljótlega svo það sé ekki sem einhver baggi á herðum okkar lengi, það kostar að eiga ónotað húsnæði á Íslandi í dag.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

 

24.03.2014 08:27

Þessir litlu hlutir í kringum okkur

sem við viljum gleyma svo oft geta verið svo fallegir. Ég elska það á vorin og sumrin að setjast niður einhvers staðar úti í náttúrunni með macro linsuna mína og bara finna þessi smáatriði sem við sjáum oft ekki þar sem við löbbum bara framhjá þeim og erum allt of mikið að flýta okkur.

Þó þið séuð ekki ljósmyndarar prófið að setjast niður í fíflabreiðu og horfið á fíflana.  Sjáið hversu mismunandi þeir eru og hvað mikil fjölbreytni getur verið í einni svona breiðu.

Leggist á magann á grasið og horfið niður fyrir ykkur þegar þið labbið, þið eigið eftir að uppgötva alveg nýjan heim.

 

 

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

 

Flettingar í dag: 1355
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 2969
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1035988
Samtals gestir: 122971
Tölur uppfærðar: 24.4.2014 16:18:23